Af hverju skilur Davið þetta ekki ?

Það er einkennilegt að ég hef deilt þessari skoðun með Samtökum Iðnaðarins lengi og er ég þó ekki hagfræðimenntaður. Það má vera að þessi aðferðafræði Seðlabankans hafi einhvertíma virkað, en þá var ekki til staðar þessi eftirsókn í auðfengna ávöxtun eins og nú er. Auðvelt er að ímynda sér að útflutningsgreinar eins og sjávarútvegur sem þarf að berjast á þremur vígstöðvum, þ.e. hærri vextir, lágt gengi og skerðing aflaheimilda munu líða undir lok fyrr en okkur grunar.

Mér býður í grun að upptaka EVRU sé nær okkur í tíma en okkur grunar og varla er það óskadraumur landsföðurs Seðlabankans. Af hverju skilur hann ekki áhyggjur Samtaka Iðnaðarins sem endurspeglar örugglega áhyggjur marga í þjóðfélaginu ? Þarf kannski að breyta hlutverki bankans ?


mbl.is Samtök iðnaðarins segja vaxtahækkun misráðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífið í öllum litum

Jæja, nú er hún Hildur mín komin heim með kallana sína frá Krít. Ferðin var henni góð en ferðlögin með fluginu reyndu mikið á hana. Á mánudag fór ég með henni í útför Ástu Lovísu, hetjunni sem lést fyrir aldur fram úr vágestinum Krabba. Þetta var okkur mjög erfitt. Hildur mín grét og ég held að ég hafi grátið næstum því eins mikið. Bæði var að athöfnin var mjög falleg og Páll Óskar túlkaði lögin sem hann flutti af einstakri einlægni og ég á það til einna helst að gráta þegar ég heyri fallega flutta tónlist. En vegna þessara alvarlegu veikinda Hildar þá á ég til að missa mig í óþægilegar hugsanir við þessar aðstæður. Þið skiljið.

Á laugardaginn gladdist litla hjartað mitt hinsvegar mikið þegar kallinn breyttist úr venjulegum háforgjafarmanni í golfi í Afreksmann í golfi. Jú nokkuð sem að töffarann hafði bara dreymt um. Ég vann til verðlauna í opnu golfmóti. Var jafn öðrum kylfingi í fyrsta sæti af 105 kylfingum. Að vísu með forgjöf. Hinsvegar þá var bara einn í fyrsta sæti og það var ekki ég. Fúlt, en svona er þetta. Hann var með einum punkti betra skor á síðustu 9 holunum. Ég fékk fín verðlaun. Gjafakort fyrir ECCO golfskóm upp á kr. 25.000, 2 vínflöskur og 20 bjóra. Vínið fékk golfkennarinn minn þar sem ég tileinkaði honum árangurinn. Hinsvegar það sem mér fannst fúlast, var að fá ekki bikar. Ég vill fá bikar, en akkúrat í þessu móti voru ekki neinir bikarar veittir. Ég verð þá bara að kaupa bikar og láta grafa í hann. Spurningin er hinsvegar á ég að láta grafa: 1. - 2. sæti eða 2. sæti ? Mikil pæling.

 Nú ég náttúrulega ofmetnaðist við þetta. Var að koma úr liðamóti í kvöld þar sem ég gat ekki rassgat. Ég var náttúrulega búinn að innprenta í hausinn á mér að eftir velgengnina á laugardag þá lægi brautin bara bein upp á við og að ég þyrfti nú helst að kaupa sérskáp fyrir öll verðlaunin sem ég ætti eftir að vinna í sumar !

Það er nóg eftir af sumrinu og ætli ég verði ekki bara að halda áfram að æfa og halda mér niður á jörðinni. En golfið er eins og lífið ekki satt, " up´s and down´s " og maður verður að halda áfram að æfa sig til að verða betri maður.

 


Pollýanna í sjónmáli

Það er alveg ótrúlegt hvernig afneitunakerfi mannshugans virkar. Ég hef nú kannski svolítið mikla æfingu en ég er allur að koma til eftir ótíðindin í síðustu viku og leyfi mér að trúa að Hildur læknist.

Hún hringdi í mig í gær frá Krít og það var þvílikt gott hljóð í henni. Staðurinn alveg frábær. Rólegur og ekki yfirtekin af túrisma eins og margir staðir á Spáni t.d. Veðrið yndislegt og gistingin framúrskarandi, en Heiða dóttir mín þekkir fararstjórann og bað hana um góða gistingu fyrir systur sína og hún varð svo sannarlega við þeirri beiðni.

Hringdi í Villa vin minn, pabba Ástu Lovísu í dag og fann hann í vinnunni mér til undrunar. Hann komst að því að betra væri að vera að vinna heldur en að sitja einn heima með hugsanir sínar. Þetta er hárrétt hjá honum og ég dáist að þeim styrk sem hann býr yfir og gæti þegið afleggjara.

Af öðrum málum sem eru ofarlega í huga mínum eru vangaveltur um aflaráðgjöf Hafró og fiskveiðistjórnunina, en hún er eitthvað mikið brengluð. Hvernig má það vera að fiskistofninn ( samkv. mælingu Hafró ) er stöðugt á niðurleið og samt er alltaf verið að draga úr sókninni og svo blaðra menn um að við búum við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi ? Mér finnst það liggja í augum uppi það sem Jón Kristjánsson fiskifræðingur ( útlægur af því að það hentaði ekki kvótagreifunum það sem hann segir ), Magnús Þór Hafsteinsson o.fl. segja að fyrst fiskurinn er grindhoraður að þá liggi það í augum uppi að hann fái ekki nóg æti. Annaðhvort er stofninn það stór eða að fæða hans er drepin ! Skyldi vera samhengi á milli þess að eftir að loðnuveiðar hófust í stórum stíl fyrir rúmum 30 árum að þá hefur stofninn verið að minnka ? Þetta pirrar mig ansi mikið þessa dagana. Góðu fréttirnar fyrir mig eru að krónan veikist og fæ ég meira í minn hlut fyrir útflutninginn.

Jæja nú er nóg komið að sinni.


Vondur dagur var verri.

Ég ætlaði að koma því á framfæri en láðist þar sem ég var upptekinn við að skrifa um mig og mína.

Til að toppa hörmungarnar, þá fékk Hildur hringingu frá vinkonu Ástu Lovísu kl. rúmlega fimm í gærdag þar sem hún tilkynnti henni að hún væri látin.

 Elskuleg dóttir hans Villa vinar míns dáin. Þetta er hræðilegt. Ég sendi Villa og fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur og óska þeim alls hins besta.

Góða nótt.


Vondur dagur í gær, Lýsi eftir Pollýönnu !

Ég hef einhvern veginn ekki haft mikið geð í mér til að skrifa í rúma 2 mánuði. Ástæður eru einkamál sem ég ætla ekkert að fjölyrða um.

Nú einhverjir kíkja hér inn daglega og mér finnst ég verði að uppfæra fréttir fyrir þá.

Ég sagði frá í síðustu viku frá veikindum hennar Hildar minnar og slysinu sem hann litli Þórður Helgi varð fyrir í Austurríki.

Nú byrjum á góðum tíðindum. Litli kúturinn er nú búinn að ná sér að fullu og má byrja að sprikla og spila fótbolta á morgunn. Augun eru orðinn eðlileg og hann bara eins og hann á að sér að vera.

 Þá koma vondu tíðindin. Dagurinn í gær var sá versti síðan ég heyrði af slysinu í Austurríki. Hildur fór í sneiðmyndatöku í gær og síðan fórum við að hitta Óskar lækninn hennar til að heyra niðurstöður. Einhvern veginn var ég svo bjartsýnn og lék á alls oddi og Hildur mín líka. En svo komu niðurstöðurnar úr myndatökunni og það var eins og að vera sleginn með blautu handklæði í andlitið. Aumingja Óskar, þessi yndislegu maður sem nú var boðberi válegara tíðinda, og honum leið illa. Fjölgun og stækkanir á meinvörpum í lungum og það sem verra var, meinvörp kominn í lifur. Þetta var einu orði sagt svakalegar niðurstöður og til að magna óttann var að Ásta Lovísa þjáningasystir Hildar lá fyrir dauðanum vegna meinvarpa í lifur. Þetta var döpur stund og átakanleg fyrir okkur öll og sérstaklega fyrir engilinn minn.

Ég var ágætur fram á kvöldið, en þá fór þetta að koma bylgjum og gerir enn, reiði og sorg yfir að geta ekkert gert í málinu. Maður verður svo óskaplega hjálparvana að heyra svona fréttir að möguleikunum fari fækkandi fyrir yndislega barnið sitt. Hún Hildur mín er svo yndisleg manneskja og dóttir að ekki er hægt að óska sér meira. Ég hef ekki séð sólina fyrir henni og ég man eftir þegar mamma hennar var ófrísk af Bjössa mínum, þá var ég í raun að vonast eftir annarri Hildi svo mikið dýrkaði ég hana. En Bjössi kom og ég var svo sannarlega sáttur við það.

Ég hef verið sterkur mest allann þennan veikindatíma hennar Hildar sem telur 4 ár næsta október og alltaf haft Pollýönnu á öxlinni en hún virðist hafa dottið af í gær. Ég lýsi hér með eftir Pollýönnu !

 Óskar sagði "við gefumst ekki upp, það kemur ekki til greina" , og þannig er staðan. Nú er bara að safna liði og sækja í sig veðrið.

Það er dapurlegt að koma með svona fréttir en þetta er raunveruleikinn. Ég var að hugsa um að blogga um rokktónleika síðasta mánudag, en þeir skifta litlu máli. 

Ég ætla rétt að vona að ég geti fært ykkur eitthvað ánægjulegra á næstunni. Takk.


Er nú ekki komið nóg ?

Þetta er nú aðeins í þriðja skifti sem ég skrifa blogg. Ég hef eiginlega ekki verið viss um hvort ég yfirhöfuð nennti eða hefði áhuga á að skrifa eitthvað, en greinilega hafa einhverjir áhuga á að vita hvort ég hafi yfir höfuð eitthvað að segja.

Þar sem svo mikið hefur skeð hjá mér og fjölskyldu minni síðustu vikuna finnst mér ég knúinn að láta ykkur vita af því, en sum ykkar hafa væntanlega frétt af þessum atburðum eftir öðru leiðum og þá kannski af blogginu hennar Hildar Sif dóttur minnar.

 

Hildur mín hefur nú verið að berjast við krabbamein í þrjú og hálft ár. Oft,  og já yfirleitt hefur þetta litið illa út hjá henni elskunni minni. En hún er greinilega með víkingablóð í æðum og hefur barist hetjulega og verið ótrúlega dugleg. Ekki nóg með að ala upp litla drenginn sinn Þórð Helg og sinna eiginmanni þá hefur hún stundað námið í HR af kappi.

Augasteinninn minn Þórður Helgi fór í 2ja vikna skíðaferðalag til Austurríkis með pabba sínum, föðurbróður og ömmu ásamt þeirra fjölskyldum. Á miðvikudaginn s.l. á tíunda degi ferðarinnar lendir hann í all svakalegu slysi þar sem snjótroðari bakkar hann niður og yfir hann. Þetta leit mjög illa út í byrjun og telja allir að hann hafi bjargast fyrir kraftaverk og án meiðsla sem ekki ganga til baka. Helstu meiðsli voru, skurður á hnakka, sprungur í mjaðmagrind og rifa á lifur en það var það hættulegasta. Einnig er hann töluvert mikið marinn. Hann hélt meðvitund allann tímann og er orðinn ansi brattur. Laus við slöngur og farinn að labba aðeins um og sitja uppi. Ég er búinn að tala við kappann tvisvar og og honum líður vel.

Nú hann kemur heim í einkaflugvél ásamt Þrúðu ömmu, væntanlega á miðvikudaginn. Þegar ég spurði hann hvort hann kæmi með einkaflugvél, var svarið, nei með einkaþotu. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið þar sem hann segist ætla að kaupa minnst eina slíka þegar hann er orðinn 18 ára.

Það verður meiriháttar að fá að hitta hann litla kútinn.

 Nú, þetta eru nú ekki einu gleðifréttirnar, þar sem Hildur Sif fékk mjög jákvæðar niðurstöður úr sneiðmyndatökunni fyrir helgi, en nýju lyfin sem hún hefur verið á síðan í janúar eru að svínvirka og hafa sum meinvörp horfið og önnur minnkað verulega, utan eitt. Þetta er í fyrsta sinn í 2 ár sem minnkun hefur orðið.

 Jæja, það ég á við með fyrirsögninni skýrir sig sjálft er það ekki ?

Thordur Helgi - Feb 2007

Hér er mynd af Þórði Helga tekin fyrir c.a. mánuði síðan. Fallegur, finnst ykkur ekki ?Thordur og Hildur_resize

Mynd af þeim mæðginum, Hildi Sif og Þórði Helga í október 2003, rétt eftir að Hildur greinist með brjóstakrabbamein.


Ekki mitt lag !

Þrátt fyrir að lag Eiríks mundi flokkast undir mína músik þá var það nú ekki að heilla mig neitt sérstaklega og ég held að það fleyti okkur ekki í aðalkeppnina. Mér fannst lagið hans Dr. Gunna vera alveg frábært og sama má segja um flutninginn á því. Þetta er svona lag sem grípur mann og fær mann til að brosa, En hvað veit ég ?

Jæja, loksins mættur.

Jæja Hildur Sif, þá er kallinn loksins mættur. Búinn að skrá lágmarks upplýsingar, en enga mynd. Þori varla að setja hana inn. Er orðinn soddann ellismellur.

Ég hef verið að hugsa og bera saman tíðarandann núna og fyrir kannski 25-30 árum, sennilega bara 10-15 árum að þrátt fyrir harðara ofbeldi á götunum nú sem ýmsar orsakir eru fyrir, þá hef ég tekið eftir að fólk faðmast mikið oftar við hin minnstu tilefni. Í þá gamla daga fannst fólki þetta skrítið og var þá helst aðeins að faðma sína nánustu, og varla það........... Mér datt þetta svona í hug, en þetta hlýtur að vera jákvætt.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

Höfundur

Helgi Björnsson
Helgi Björnsson

Miðaldra eilífðarpoppari sem hefur áhuga á öllu sem við kemur Manchester United og golfi.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband